Samlausn er vettvangur fyrir áætlun fjögurra sorpsamlaga um meðhöndlun úrgangs fram til ársins 2020. Samlögin eru Sorpurðun Vesturlands hf., SORPA bs., Sorpeyðingarstöð Suðurnesja sf. og Sorpstöð Suðurlands bs. Samanlagt starfssvæði er frá Gilsfjarðarbotni í vestri og að Markarfljóti í austri.
19.12.2022 13:28:46

Sameiginleg svæðisáætlun undirrituð

Á aðventunni var samþykkt og undirrituð ný sameiginleg svæðisáætlun fjögurra sorpsamlaga og 32 sveitarfélaga á suðvesturhluta landsins.

Í samræmi við ákvæði 6. greinar laga nr. 55/2003 hefur samstarfsvettvangur SORPU bs, Sorpurðunar Vesturlands hf, Sorpstöðvar Suðurlands bs og Kölku, sorpeyðingarstöðvar sf. unnið þessa nýju svæðisáætlun um meðhöndlun úrgangs á starfssvæði samlaganna fjögurra fyrir tímabilið 2022-2033.

Í þessari áætlun eru metnaðarfull markmið og aðgerðaáætlun um innleiðingu hringrásarhagkerfis, sem er eitt stærsta og mikilvægasta verkefni íslensks samfélags næstu ára. Það er mikið ánægjuefni að svona breið og mikil samstaða hafi náðst í jafn mikilvægum málaflokki.

Svæðisáætlanir sveitarfélaga er verkfæri í ákvarðanatöku og hefur það markmið að efla og styrkja markmið sveitarfélaga fyrir meðhöndlun úrgangs og sem vettvangur upplýstrar ákvarðanatöku í úrgangsstjórnun. Svæðisáætlanir hafa líka þann tilgang að skapa umgjörð utan um samtal og stærri ákvarðanir sveitarfélaga á viðkomandi svæðum um úrgangsforvarnir og um söfnun og aðra meðhöndlun úrgangs. Öllum sveitarfélögum er nú skylt að skila inn svæðisáætlun, samkvæmt nýju hringrásarlögunum sem taka gildi á næsta ári. Það er því ánægjulegt að þessi vinna sé í höfn, nú rétt fyrir áramót.

Svæðisáætlun 2022-2033