Sumarið 2019 varð Twitter-færsla finnskar þingkonu tilefni lögreglurannsóknar. Konan heitir Päivi Räsänen, hún er kristilegur demókrati, var um tíma formaður flokksins og gegndi embætti innanríkisráðherra frá 2011-2015. Færslan þótti til þess fallin að móðga hinsegin fólk.

Tildrög twitter-færslunnar voru þau að Kirkko, kirkjan sem Räsänen tilheyrir, gekk fomlega til samtstarfs við hreyfingu hinsegin fólks. Räsänen, sem telur að guðdómurinn líti hverskonar kynusla alvarlegum augum, póstaði mynd af texta þar sem vísað er í ritningargreinar biblíunnar, bæði vers þar sem samlífi karla er án nokkurs vafa fordæmt og vers sem Räsänen telur að beri að túlka í ljósi þess að kynlífssambönd sem víkja frá normi fyrri hluta 20. aldar á Vesturlöndum, séu synd sem ekki eigi að viðgangast í kristnu samfélagi. Myndinni fylgdi athugasemd sem samkvæmt þýðingarforritum útleggst eitthvað á þessa leið:

#kirkko lýsir því yfir að kirkjan sé formlegur samstarfsaðili #Pride2019. Hvernig samræmist það kennisetningum kirkjunnar að láta sem synd og skömm sé eitthvað til að vera stoltur af?

https://twitter.com/PaiviRasanen/status/1140693636176384011

Viðbrögð finnskra yfirvalda í máli Räsänen gengu öllu lengra en viðbrögð stjórnvalda á Íslandi í máli Snorra í Betel. Tístið var rannsakað sem hatursorðræða og Räsänen undirgekkst fjögurra klst yfirheyrslu hjá lögreglu. Í mars sl. var svo opnuð margra ára gömul lögreglurannsókn á hendur henni vegna bæklings sem hún tók saman fyrir 15 árum þar sem hún lagði út af trúarritum til stuðnings þeirri hugmynd að kristin kirkja ætti ekki að fallast á hátterni hinsegin fólks. Lögreglan hafði á sínum tíma lokað þeirri rannsókn með þeirri niðurstöðu að ekkert væri að finna í bæklingnum sem varðaði við refsilög.

Málið vakti furðu litla fjölmiðlaathygli utan Finnlands, nema helst hjá kristilegum vefritum. Ég hef t.d. ekki fundið neitt um það í íslenskum miðlum.

Þrengt að tjáningarfrelsi í Evrópu

Mál Räsänen er aðeins eitt lítið dæmi um það hvernig ríki Evrópu eru að þrengja að tjáningarfrelsinu. Flestar lögreglurannsóknir og íþyngjandi stjórnvaldsákvarðanir sem ætlað er að þagga niður í fólki með óvinsælar (og stundum ógeðslegar skoðanir) byggjast á frjálslegri túlkun á hugtakingu „hatursorðræða“.

Hatursorðræða er refsiverð ef hún felst í ógnunum eða hvatningu til ofbeldis eða mismununar eða ef hún er sett fram í þannig samhengi að fyrirsjáanlegt sé að hún verði tilefni ofbeldis eða mismununar. Það er ekki refsivert að hafa úreltar skoðanir. Engu að síður verður tjáning, sem „rétthugsandi“ fólk telur hatursfulla, oft tilefni pólitískra ofsókna. Fólk er niðurlægt á samfélagsmiðlum og nuddað upp úr vömmum og skömmum sem koma málinu ekkert við. Félagsleg útskúfun fylgir í kjölfarið, sumir missa vinnuna og stundum er lögreglu sigað á fólk sem er ekki á nokkurn hátt hættulegt, bara með skoðanir sem falla ekki í kramið.

Þótt hatursorða sé algengasta réttlætingin fyrir takmörkun tjáningarfrelsis er líka ástæða til að hafa áhyggjur af hömlum við tjáningu um trúarbrögð. Í október 2018 lagði Mannréttindadómstóll Evrópu blessun sína yfir þá lagatúlkun austurrískra dómstóla að gagnrýni á Islam gæti varðað hóflegri refsingu ef hún væri til þess fallin að særa trúartilfinningar múslíma. Í því tilviki hafði stjórnmálakona lagt út af sambandi Múhammeðs spámanns við eiginkonu sína, sem samkvæmt trúarritum var 9 ára þegar hjónabandið var fullkomnað, og spurt: „Hvað köllum við það ef ekki barnagrind?“

Í nafni þjóðaröryggis

Takmörkun tjáningarfrelsis í nafni mannréttinda viðgengst í Evrópu. Slíkar takmarkanir hafa verið réttlættar með því að minnihlutahópar eigi ekki að þurfa að þola orðræðu sem beint er gegn heiðri þeirra eða gegn menningu þeirra og trúarbrögðum. Sú þróun er hættuleg og til þess fallin að bæla niður réttmæta póltíska gagnrýni. Oftast hafa afskipti yfirvalda beinst gegn áhrifamiklu stjórnmálafólki en einnig er nokkuð um að fólk sem hefur ekkert áhrifavald sé dregið til ábyrgðar fyrir ummæli sem með misgóðum rökum eru talin óviðeigandi eða fjandsamleg. En nú lítur út fyrir að yfirvöld ætli sér að ganga lengra í því að stjórna flæði og viðtöku tjáningar og upplýsinga. Nú á að leggja til atlögu gegn falsfréttum. Eðlilega vaknar sú spurning hvort fjölmiðlafrelsi sé í hættu.

Meira um fyrirhuguð ríkisafskipti af falsfréttum hér.