Fara beint í efnið

Forsetakosningar 2024

Skil framboða og meðmælalista

Skil framboða

Þau sem ætla að bjóða sig fram til embættis forseta Íslands þurfa að safna meðmælum með framboði sínu og skila tilkynningu um framboð til landskjörstjórnar.

Landskjörstjórn kemur saman til fundar og tekur við framboðum frá klukkan 10:00 – 12:00 föstudaginn 26. apríl 2024 í fundarherberginu Stemmu í Hörpu.

Framboðum skal fylgja:

  • Tilkynning um framboð.

  • Undirritað samþykki frambjóðenda fyrir því að fara í framboð.

  • Meðmæli 1.500 – 3.000 kosningabærra manna.

Landskjörstjórn hefur útbúið sniðmát af framboðstilkynningu sem frambjóðendum er frjálst að nota.

Sé meðmælum skilað á rafrænan hátt í gegnum meðmælendakerfi á Ísland.is skal taka það fram í tilkynningunni.

Ef meðmælum er skilað á pappír skal skila inn frumritum meðmælablaða. Mælst er til þess að frambjóðendur númeri hverja blaðsíðu og slái inn kennitölur meðmælenda í töflureikni (s.s. Excel) til þess að auðvelda yfirferð. Hægt er að nálgast sniðmát fyrir innsláttinn hér.

Framboðstilkynningu má undirrita eigin hendi eða með rafrænni undirritun. Ef tilkynningin er undirrituð rafrænt skal hún send á postur@landskjorstjorn.is.

Eftir að framboðsfrestur rennur út fer landskjörstjórn yfir framboðin og kannar að öll formsskilyrði séu uppfyllt og úrskurðar í kjölfarið um gild framboð.

Umboðsmenn

Frambjóðendur þurfa að tilkynna hverjir eru umboðsmenn þeirra í öllum kjördæmum.

  • Umboðsmenn þurfa ekki að eiga lögheimili í viðkomandi kjördæmi.

  • Umboðsmenn þurfa að samþykkja skriflega að vera umboðsmenn, en heimilt er að skanna inn samþykkið eða undirrita samþykkið rafrænt.

Meðmælasöfnun

Frá og með 1. mars er hægt að safna meðmælum rafrænt.

Til þess að stofna meðmælasöfnun þarf að skrá sig inn með rafrænum skilríkjum. Forsetaframbjóðandi þarf að safna meðmælum með framboði sínu frá kjósendum. Meðmæli skulu ekki vera færri en 1.500 og ekki fleiri en 3.000.

Mikið hagræði er fyrir frambjóðanda, meðmælendur og landskjörstjórn að nota rafrænt meðmælakerfi.

Söfnun meðmæla er aðgengileg öllum þeim sem vilja veita ákveðnum frambjóðanda sín meðmæli og frambjóðandinn sjálfur fær hlekk á sína söfnun sem hann getur dreift að vild. Þá er auðvelt fyrir frambjóðanda að fylgjast með stöðu á fjölda meðmæla eftir landsfjórðungum og yfirferð landskjörstjórnar verður einfaldari og tekur skemmri tíma en áður.

Til þess að skoða stöðu meðmæla þarf að skrá sig inn á Mínar síður á Ísland.is með rafrænum skilríkjum, þar velurður Mínar upplýsingar og svo Listar og þar undir Meðmælasöfnun. Þar undir er einnig hægt að hætta við söfnun meðmæla.

Aðeins frambjóðandi sjálfur getur stofnað til meðmælasöfnunar en síðan er hægt að veita öðrum umboð til að fá aðgang að söfnuninni og vera umsjónaraðili hennar.

Frambjóðandi getur veitt umsjónaraðila umboð til þess að sjá stöðuna á söfnuninni:

Til þess að veita umsjónaraðila umboð fyrir meðmælasöfnun þarf frambjóðandi að skrá sig inn á Mínar síður á Ísland.is, og smella á kassann Aðgangsstýring.

Þar er smellt á Skrá nýtt umboð, kennitala umsjónaraðila slegin inn, passa að undir Aðgangstýringar sé valið: Mínar síður Ísland.is smella svo á velja réttindi. Á næstu síðu er hakað í Meðmælasöfnun og að lokum er smellt á skrá nýtt umboð og staðfesta.

Að því loknu getur umsjónaraðilinn skráð sig inn á Mínar síður með sínum rafrænum skilríkjum, valið að skipta um notanda í fellilistanum undir nafninu hans og valið nafn frambjóðandans. Umsjónaraðilinn smellir svo á kassann Mínar upplýsingar inn á Mínum síðum og svo á Listar og Meðmælalistar. Þar getur hann séð stöðuna á söfnun meðmæla niður á landsfjórðunga.

Frambjóðandi getur afturkallað umboð sinna umsjónaraðila á sama stað og hann veitti umboðið, undir Mínum síðum og Aðgangsstýringar. Svo þarf að smella á Eyða og svo aftur á Eyða umboði.

Aðgangsstýring

Söfnun meðmæla á pappír

Ef safna á meðmælum á pappír eru hér eyðublöð fyrir hvern landsfjórðung sem hægt er að nota við slíka söfnun. Mælst er til þess að frambjóðendur skrái kennitölur og blaðsíðunúmer í excel skjal eða annan töflureikni og skili inn samhliða frumgögnunum.

Gerð er krafa um ákveðinn fjölda meðmælenda í hverjum landsfjórðungi:

Vinnsla persónupplýsinga landskjörstjórnar um meðmælendur

Forsetakosningar 2024

Lands­kjör­stjórn

Hafðu samband

Sími: 540 7500

postur@landskjorstjorn.is

Heim­il­is­fang

Tjarnargata 4

101 Reykjavík

kt. 550222-0510