Landspítali fær Loftslagsviðurkenningu Festu og Reykjavíkurborgar 2020

Samgöngur Umhverfi

""

Lofts­lags­fund­ur Festu og Reykjavíkurborgar var haldinn í morgun og var í beinu streymi frá Tjarnarsal Ráðhúss Reykjavíkur. Landspítali hlaut Loftslagsviðurkenningu Festu og Reykjavíkurborgar og Carbfix hlaut Nýsköpunarverðlaun.

Lofts­lags­fund­ur Festu og Reykjavíkurborgar var haldinn í morgun og var í beinu streymi frá Tjarnarsal Ráðhúss Reykjavíkur. Í ár eru fimm ár liðin frá því að þjóðir heims undirrituðu Parísarsamkomulagið og settu sér það markmið að halda hlýnun jarðar innan við 2°C og þá helst nærri 1,5°C. Einnig eru liðin fimm ár frá því að loftslagsyfirlýsing Festu og Reykjavíkurborgar var undirrituð í Höfða af rúmlega hundrað stjórnendum fyrirtækja og stofnana.  Í erindum fundarins í morgun var farið yf­ir hvað hefur gerst á þess­um fimm ár­um og farið yfir þær gríð­ar­legu breyt­ingar og áskoranir sem eru í farvatninu á næstu fimm ár­um.

Loftslagsviðurkenning Festu og Reykjavíkurborgar var nú veitt í fjórða sinn. Markmið viðurkenningarinnar er að vekja athygli á því sem vel er gert í loftslagsmálum og vera hvatning til annarra. Við matið var horft til ýmissa þátta, einkum til þess árangurs sem þegar hefur náðst við að draga úr heildarlosun gróðurhúsalofttegunda. Loftslagsviðurkenningu Festu og Reykjavíkurborgar árið 2020 hlýtur Landspítalinn.

Í rökstuðningi dómnefndar segir:

„Eitt meginmarkmið Landspítala var að draga úr losun um 40% fyrir árslok 2020 miðað við losun ársins 2015. Aðgerðir spítalans hafa sýnt góðan árangur en á milli 2018 og 2019 var samdráttur í losun rúm 17% og spár sýna að markmið þeirra um 40% samdrátt í losun fyrir lok ársins 2020 muni nást. Settur var upp búnaður  til að eyða glaðlofti. Þá hefur notkun á olíukatli til orkuframleiðslu  verið hætt og rafmagn er nú notað í staðinn. Þessar tvær aðgerðir munu minnka losun CO2 ígilda spítalans sem svarar til rúmum 1000 tonnum á ári. Samgöngusamningar við starfsfólk hafa leitt til þess að fjölmargir nýta sér nú vistvæna ferðamáta. Aðstaða hjólreiðafólks var stórbætt við starfsstöðvar og í ár fór spítalinn í samstarf með Strætó um niðurgreiðslu árskorta og hefur virkum árskortum fjölgað úr 130 í 540 á einu ári.

Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans veitti viðurkenningunni viðtöku og segir hana hafa mikla þýðingu fyrir Landspítalann enda málið afar brýnt og ógn við heilsu og framtíðina. „Við settum okkur markmið um 40% samdrátt kolefnisspors fyrir árslok 2020 og bráðabirgðatölur sýna að því verði náð og af því erum við afar stolt. Spítalinn vill vera drifkraftur í samfélaginu og skorar á fyrirtæki og stofnanir að grípa til aðgerða.“

Sérstök nýsköpunarviðurkenning var nú veitt í fyrsta sinn en hana hlaut nýsköpunarfyrirtæki sem hefur náð eftirtektarverðum árangri í þágu loftslagsmála. Nýsköpun og uppbygging er níunda heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna enda er nýsköpun mikilvægur liður í því að stemma stigu við loftslagsvandanum. Nýsköpunarviðurkenningu Festu og Reykjavíkurborgar árið 2020 fær Carbfix.

Í rökstuðningi dómnefndar segir:

„Carbfix fargar koldíoxíði úr útblæstri orku- og iðjuvera sem fangað er úr andrúmslofti og bindur það varanlega í bergi með öruggum og hagkvæmum hætti. Rannsóknir sem hafa meðal annars verið gerðar í samstarfi við Háskóla Íslands sýndu að yfir 95% af því koldíoxíði sem dælt var niður í basaltmyndanir á Hellisheiði myndaði steindir innan tveggja ára, sem er mun fyrr en áður var talið mögulegt. Með byltingarkenndri tækni Carbfix hefur fyrirtækið frá árinu 2007 bundið rúmlega 70.000 tonn af koldíoxíði í bergi. Nýsköpun á vegum Carbfix hefur leitt til þess að tækni þróuð á Íslandi er nú í alþjóðlegu einkaleyfaferli og hefur hlotið alþjóðleg verðlaun fyrir aðferðina.“

Edda Sif Pind Aradóttir, verkefnastjóri Carbfix, tók við viðurkenningunni á fundinum í morgun. „Við erum mjög stolt af þessari viðurkenningu frá Festu og Reykjavíkurborg og þakklát fyrir þá hvatningu sem í henni felst.“ Hún segir jafnframt að í núverandi heimsfaraldri hafi farið minna fyrir loftslagsvánni í opinberri umræðu. „Ef það er eitthvað sem kórónuveiran hefur kennt okkur þá er það að við getum alveg breytt ýmsu sem við héldum að væri greypt í stein. Við hjá Carbfix þökkum fyrir okkur og höldum ótrauð áfram að greypa koldíoxíð í stein, í eiginlegri og óeiginlegri merkingu.“