„Við vorum glöð í vinnunni á hverjum degi“

Velferð Mannlíf

""

Í sumar ferðuðust meðlimir Gleðismiðjunnar á milli fjörutíu ólíkra staða í borginni, svo sem sambýla, íbúðakjarna og félagsmiðstöðva, með það eitt að markmiði að brjóta upp daginn og gleðja, með listsköpun og útiveru. Smiðjan spratt upp úr átaksverkefni Reykjavíkurborgar um að fjölga sumarstörfum fyrir námsmenn. 

„Okkur fannst þetta ganga alveg rosalega vel. Fólk tók ofboðslega vel í að fá okkur í heimsókn og við sáum ekki betur en að allir væru glaðir að fá okkur,“ segir Valgerður Marija Purusic, ein meðlima Gleðismiðjunnar, sem heimsóttu í sumar um fjörutíu ólíka staði á borð við sambýli, íbúðarkjarna og félagsmiðstöðvar fyrir eldri borgara og buðu upp á fjölbreytta dagskrá sem samanstóð meðal annars af tónlistaratriðum, upplestrum og myndlistar- og útivistarsmiðjum.

Hér má heyra sýnishorn af frábærum tónlistarflutningi Gleðismiðjunnar:

Hópurinn sem stendur að Gleðismiðjunni hefur fjölbreytta reynslu, meðal annars úr listgreinum og íþróttum en hann skipa, auk Valgerðar, þau Anna Róshildur Benediktsdóttir, Björk Ásgrímsdóttir, Hugrún Elfa Sigurðardóttir og Valbjörn Snær Lilliendahl. Valgerður bætir því við að hópurinn hafi lagt mikið upp úr því að aðlaga dagskrána að hverjum stað fyrir sig. Hún segir gleðina og góðar viðtökurnar hafa smitast áfram til meðlima hópsins, sem sjálfir hafi fengið mikið út úr sumarvinnunni. „Þessar góðu viðtökur sem við fengum gerðu alveg daginn hjá okkur. Við vorum glöð í vinnunni á hverjum degi.“

Gleðismiðjan féll undir eina af þeim aðgerðum sem Reykjavíkurborg réðst í til að bregðast við Covid-19 sem fólst í að fjölga tímabundnum sumarstörfum fyrir námsmenn. Á velferðarsviði urðu til 204 sumarstörf. Það var Sigurbjörn Rúnar Björnsson, forstöðumaður SmíRey og Opus, sem hafði yfirumsjón með Gleðismiðjunni. „Þetta voru allt spennandi verkefni sem hófust í upphafi sumars. Við renndum svolítið blint í sjóinn með þau en þau gengu heilt yfir mjög vel. Ég var settur í að ráða starfsfólk og para rétt fólk saman. Það var mjög skemmtileg vinna og Gleðismiðjan spratt meðal annars upp úr þessari vinnu. Gleðismiðjan kom fram víða í sumar. Stundum í litlum herbergjum, stundum í stórum sölum og oft úti í náttúrunni. Það virtist vera alveg sama hvar þau komu fram, þau reyndust geta gert allt sem þau voru beðin um að gera. Þetta er alveg ótrúlega frjótt fólk,“ segir Sigurbjörn.

Með því að smella hér má sjá fleiri myndbönd frá Gleðismiðjunni.