Tix.is

Um viðburðinn

Á alþjóða mannréttindadaginn, 10. desember, verður haldinn viðburður í Borgarleikhúsinu til styrktar Íslandsdeild Amnesty International.  

Alþjóða mannréttindadagurinn er haldinn til heiðurs Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna sem var samþykkt 10. desember árið 1948. Mannréttindayfirlýsingin er grunnurinn í starfi Amnesty International og því er heldur betur tilefni til að fagna.  

Leiklestrarfélagið og hljómsveitin Mandólín bjóða upp á leiklestur með tónlist í tilefni dagsins. Þau flytja verkið Allir þeir við falli er búið eftir Samuel Beckett sem upphaflega var skrifað fyrir útvarp en lifnar við að þessu tilefni. Lesarar eru engir aðrir en Brynhildur Guðjónsdóttir, Íris Tanja Flygenring, Jakob Þór Einarsson, Kristján Franklín Magnúss, Sigurður Sigurjónsson, Valdimar Flygenring, Þór Tulinius og Örn Gauti Jóhannsson. Leikstjóri er Þórunn Magnea. Mandólín er skipuð Ástvaldi Traustasyni, Birni Braga Kjartanssyni, Elísabetu Indru Ragnarsdóttur, Guðrúnu Árnadóttur, Martin Kollmar, Óskari Sturlusyni og Sigríði Ástu Árnadóttur.  

Eliza Reid, forsetafrú Íslands, flytur ávarp áður en leiklesturinn hefst. Eftir lesturinn verður boðið upp á kaffi og með því í forsal Borgarleikhússins þar sem Ellen Kristjánsdóttir tekur lagið ásamt Systrum. Í forsalnum gefst gestum einnig tækifæri að skrifa stuðningskveðjur til þeirra einstaklinga og hópa sem Amnesty International berst fyrir í mannréttindaátakinu Þitt nafn bjargar lífi sem nú stendur yfir.  

Allur ágóði rennur til mannréttindastarfs Íslandsdeildar Amnesty International. Miðaverð á viðburðinn er 2500 krónur og dagskráin hefst kl. 16:00 á Nýja sviði Borgarleikhússins.