FO vettlingar 2022

Ljósmynd / Anna Maggý

Skrifaðu undir og taktu afstöðu með réttindum hinsegin fólks!

Við skorum á Íslensk stjórnvöld að bregðast við því bakslagi í hinsegin baráttunni sem virðist hafa skotið rótum í samfélaginu okkar og jafnframt að halda áfram að beita sér á alþjóðavettvangi með því að þrýsta á aukin mannréttindi hinsegin fólks á heimsvísu.

Stöðugar fréttir af auknu hatri og óþoli í garð hinsegin fólks á Íslandi eru alvarleg teikn á lofti sem bregðast verður við. Mannréttindi eiga undir högg að sækja um allan heim og mikilvægt er að spyrna fótum við þeirri þróun hið fyrsta. Íslensk stjórnvöld bera ábyrgð á því að tryggja að löggjöf sé verndandi fyrir jaðarsetta hópa ásamt því að stuðla að forvirkum aðgerðum í formi fræðslu og upprætingu fordóma. Að sama skapi hvetjum við stjórnvöld til að beita sér á alþjóðavettvangi fyrir því að aðrar þjóðir taki sér Ísland til fyrirmyndar og tryggi lagaleg réttindi hinsegin fólks.

UN Women á Íslandi hvetur almenning til að skrifa undir þennan undirskriftarlista, taka þannig afstöðu með mannréttindum og þrýsta á íslensk stjórnvöld að tryggja virka hinseginfræðslu á öllum skólastigum um allt land um fjölbreytileikann og mannréttindi líkt og námsskrá segir til um og ungt fólk kallar eftir. UN Women á Íslandi mun afhenda Katrínu Jakobsdóttur, forsætisráðherra, Ásmundi Einari Daðasyni mennta- og barnamálaráðherra, Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur utanríkisráðherra og Guðmundi Inga Guðbrandssyni félags- og vinnumarkaðsráðherra undirskriftarlistann að söfnun lokinni.

Hætta á bakslagi á Íslandi

Fréttir af regnbogafánum sem rifnir eru niður, eyðileggingum á regnbogagötum, nýnasistaáróðri gegn hinsegin fólki, skemmdarverkum á listasýningu í tilefni Hinsegin daga, hatursorðræðu og meiðandi ummælum hafa verið óþægilega algengar síðastliðnar vikur hér á landi. Dropinn holar steininn og hver skilaboð sem send eru út, með hatrið að vopni, geta haft í för með sér að pláss verði fyrir enn meira hatur og það sem verra er, ofbeldi og hatursglæpi. UN Women á Íslandi hvetur íslensk stjórnvöld til að vera vakandi fyrir þessari þróun og tryggja aukna fræðslu eins og námskrá segir til um og ákall er eftir og opið samtal um mikilvægi fjölbreytileikans og mannréttinda. Samtökin ‘78 gegna þar einnig mikilvægu hlutverki sem mikilvægt er að styðja vel við.

Staða hinseginréttinda á heimsvísu sláandi

Aðeins 32 lönd heimila og viðurkenna tilvist samkynja hjónabanda. Það eru 195 lönd í heiminum. Það þýðir að aðeins 16% ríkja heims heimila samkynja hjónaband og 84% ekki. Ný hjúskaparlög tóku gildi á Íslandi árið 2010 sem heimiluðu hjónaband tveggja einstaklinga af sama kyni eða kynvitund. Þannig voru réttindi hinsegin fólks til fjölskyldulífs bætt til muna. Enn er langt í land til að tryggja sömu réttindi á heimsvísu.

Eitt af meginmarkmiðum UN Women er að uppræta kynbundið ofbeldi á heimsvísu. Samkvæmt gögnum frá UN Women er hinsegin flóttafólk 97% líklegra til að hafa orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi og áreiti. Að vera á flótta er hættulegt, en sérstaklega hættulegt fyrir trans fólk og kynsegin einstaklinga. En þessir hópar eru í mikilli hættu þegar það kemur að mansali, áreitni, kynbundnu ofbeldi eða annars konar vanvirðandi aðstæðum.

Í 35% ríkja heims er hinseginleiki hreinlega glæpur. Í þessum löndum er fólk handtekið og sett í fangelsi fyrir að vera það sjálft. Í Úganda, Súdan, Zambíu og Gambíu svo dæmi séu tekin varðar það lífstíðarfangelsi. Í Afghanistan er heimilt að dæma fólk til dauða. Í Pakistan og Brunei er fólk steinað til dauða fyrir að vera hinsegin. Í öðrum löndum tíðkast refsingar á borð við hýðingar, sektir, opinbera smánun. Þá eru ekki upptaldar félagslegar afleiðingar af hinseginleika á borð við ofbeldi, úthrópanir, útskúfun og hatursglæpi.

UN Women er stofnun Sameinuðu þjóðanna sem berst fyrir réttindum og málefnum hinsegin fólks um allan heim, enda verður jafnrétti ekki náð nema með jöfnum réttindum allra hópa. UN Women beitir sér fyrir aukinni fræðslu og þrýstir á stjórnvöld þegar það kemur að löggjöf og viðurkenningu á tilverurétti og mannréttindum einstaklinga.