13.12.1945
Sameinað þing: 18. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 102 í D-deild Alþingistíðinda. (3978)

134. mál, landsvistarleyfi nokkurra útlendinga

Hermann Jónasson:

Herra forseti. Það mætti nú ætla að mér hefði komið á óvart sú árás, sem á mig hefur verið gerð hér. En ég verð að segja hv. þm. þegar í upphafi máls míns, að ég bjóst meir en við því, að þeir, sem flyttu till. um þetta mál, að leyfa Þjóðverjum, sem kvæntir eru íslenzkum konum og dvelja enn erlendis, að hverfa hingað heim, mundu verða fyrir árásum og að reynt yrði að stimpla þá sem nazista. Og ég skal taka fram, að einn hv. þm., sem þó vildi vera með í að flytja þessa þáltill., sagðist ekki þora að flytja hana, vegna þess að hann byggist við að verða fyrir það fyrir árásum. — Ég er sennilega hvorki kjarkmeiri né kjarkminni en aðrir menn. En ég hef hugsað mér, meðan ég sit á Alþ., að flytja þau mál, sem ég tel rétt, og ekki sízt þau mál, sem ég finn, að aðrir vilja ekki flytja, jafnvel þora ekki að fást við vegna óþæginda, sem af því kynni að leiða. Ég minnist þess, — og það er rétt að segja frá því hér, — að þegar menn nokkrir íslenzkir, sem voru á íslenzka skipinu Arctic og rötuðu í það óhapp að lenda í klóm slíkra manna sem nazista suður á Spáni, voru teknir fastir og öll skipshöfnin, þá varð það uppvíst, að tveir af þessum mönnum voru sekir sem njósnarar, og voru þeir fluttir út ásamt allri skipshöfninni að lokum. En áður en það var gert, fór fram rannsókn hér á Kirkjusandi, og það er vissulega rétt, að þeir, sem eru svo ákaflega skeleggir gagnvart Þjóðverjum, ættu að segja einnig frá því, hvernig sú rannsókn fór fram. Það er oft nauðsynlegt í hernaði að beita ýmsum aðferðum, en svo mikið er víst, að einn sjómaðurinn kom þaðan með tveim tönnum færra í munninum en hann fór þangað og gráhærður, eftir að hafa gengið í gegnum þessa rannsókn, enda þótt engin grá hár sæjust á höfði hans þegar rannsóknin byrjaði. Þessi maður bar sig upp við ráðh. út af því, að hann fengi ekki greitt kaup fyrir þann tíma meðan stóð á þessari rannsókn. Það fékkst enginn maður til þess að flytja þetta mál hans hér á Alþ. Og eftir að talað var við ráðh. um það, hvort þeir vildu reyna það, var því neitað. Þá lét ég prenta till. um það, sem ég ætlaði að leggja fram á Alþ. með grg., eins og á stóð, þegar herliðið var hér. Og það veit skjalavörður Alþ., sem stendur þarna í dyrunum, að ég sagðist leggja þetta fram sem skjal til hvers einasta þm., ef þetta yrði ekki borgað. Og þetta var borgað. Það voru ekki þær aðstæður þá, að það mætti birta þetta — og eru kannske ekki nú, þegar verið er að tala um að „birta“ og „birta“. Þá mátti ekki birta þetta, þó að rannsóknin væri svo hörð þarna á Kirkjusandinum, — sem er kannski nauðsynlegt undir svona kringumstæðum, — að einn maðurinn, sem undir þeirri rannsókn var, fyrirfór sér á meðan á rannsókninni stóð — alsaklaus —, því að hann þoldi ekki meira.

Ég veit vel, að það er ekki undarlegt með Þjóðverja, þó að um þá væri hugsað fyrir nokkrum árum nokkru öðruvísi en nú. Það er ekki vinsælt nú að flytja till, um að leyfa Þjóðverjum að hverfa hingað heim. Sá æsingur, sem risið hefur gagnvart þýzku þjóðinni, mun sennilega tiltölulega fljótt réna, þó að nazisminn hverfi ekki úr hugum manna sem mesta grimmdaræði veraldarsögunnar. Og hann á að hverfa gagnvart þjóðinni, a. m. k. gagnvart þeim þýzku mönnum, sem saklausir eru um allt, sem nazistar hafa tekið þátt í sem slíkir. Og það, sem fyrir mér vakir, er, eins og þáltill. ber með sér, að þeir þýzku menn, sem saklausir eru af nazistisku athæfi, fái að koma hingað heim til kvenna sinna og barna, og ég get ekki séð annað en það sé í alla staði eðlilegt, ef sannað er, að þeir hafi ekkert af sér brotið, að þeir fái hér landsvistarleyfi, þeir menn, sem höfðu hér áður landsvistarleyfi, þó að þeir hefðu það aðeins eitt og eitt ár í senn, sem alltaf var framlengt umyrðalaust, og mér finnst þetta eðlilegt, þó að þeir væru fluttir burt af styrjaldarástæðum og án okkar tilverknaðar. Og það er líka sett sem skilyrði fyrir þessu leyfi þeim til handa í þessari þáltill., að þeir hafi ekki af sér brotið. Mér finnst þessi till. því á allan hátt réttlát, og þess vegna hika ég ekkert við að bera hana fram á Alþ. og hræðist það ekki, þó að beitt sé þeim aðferðum, sem fram hefur komið og ég mun rekja nokkuð í þessari ræðu.

Það hefur verið sagt hér, að ég hafi sýnt ákaflega mikla óbilgirni með því að leyfa ekki austurrískum börnum að flytja hingað til landsins. Það má náttúrlega alltaf deila um þá hluti. En svo mikið er víst, að samkv. þeim upplýsingum, sem við höfum aflað okkur, sem um þetta mál höfum fjallað, höfðu Íslendingar leyft fleiri flóttamönnum Gyðinga landsvistarleyfi, ef miðað er við fólksfjölda, heldur en nokkur önnur Evrópuþjóð. Og það var sennilega ekki af öðrum ástæðum en þeim, hve mörgum flóttamönnum hafði verið leyft að koma hingað til landsins, konum, mæðrum og börnum, að þetta leyfi var ekki veitt. Það má náttúrlega alltaf um það deila, hvar eigi að setja takmörkin fyrir þessum leyfum. Og það er vitað mál, að hér var tiltölulega margt af landflótta Gyðingum þá, og við Íslendingar höfum vissulega tekið okkar skerf af því að leyfa þeim landsvist.

Það, sem einkennir þann málflutning, sem hér hefur verið hafður í frammi, er fyrst og fremst það, sem ekki leynir sér í þessum umr., að þessar umr. allar snúast um það að ná til mín. Og þó að ég sé ekki sérstaklega veðurglöggur, þá sá ég það strax, hvað var á seyði, því að hæstv. dómsmrh. var alltaf að sýna mönum þetta skjal, gekk á milli manna, var að hlæja, brosa, láta menn lesa það, hafði það á stól fyrir sér, klappaði því eins og barni, breiddi yfir það, hafði það úti í gluggum. Það leyndi sér svo sem ekki, hvað var á ferðum. En þetta forspjall sýnir, hve geðsleg þessi vinnuaðferð þessa ráðh. er, og fæ ég kannske tækifæri til þess að sýna það betur, því að það er hér í þessum skjölum nokkuð, sem snertir njósnarstarfsemi annars ríkis. Og ef það hefur verið rétt að birta það, sem snerti njósnir Þýzkalands, þá á náttúrlega alveg eins að birta slíkt hið sama, sem öðrum þjóðum kemur við, og það hér á Alþ., því að annars staðar á hvergi fremur að birta það. — Það fyrsta, sem kemur fram í þessum málflutningi, er það, að það er reynt með ofsalegum æsingi og annaðhvort af geysimikilli vanþekkingu eða móti betri vitund að lesa hér upp um leyniþjónustuna þýzku, til þess að gefa hugmynd um, hvernig henni hafi verið háttað, hve ógurleg hún hafi verið, hvaða ofbeldisverk hún hafi framið o. s. frv., og er það sjálfsagt rétt, ég mótmæli því ekki. En það er verið að reyna að koma því inn í höfuðið á hv. þm., — sem ekki tekst, af því að þeir vita betur, — að hér á landi hafi í sambandi við leyniþjónustuna þýzku verið brotið af sér. Og sérstaklega er reynt að koma þessu til blaðanna, sem gert hefur verið ráð fyrir, að prentuðu þetta upp. Hæstv. dómsmrh. var á stöðugu tali við blaðamenn nú í fundarhléinu, sem endaði er ég hóf ræðu mína nú, sjálfsagt til þess að gefa þeim bendingar um, hvernig þeir ættu að skrifa um þessi skjöl hans á morgun.

En hvað er rétt í þessu? Halda menn, að það sé engin leyniþjónusta til nema þýzk? Heldur hæstv. dómsmrh. því fram? Er hann að mála þetta sérstaklega þannig, að hann sé að leitast við að gefa myndir af því á móti betri vitund? Það hygg ég, að sé. Ég get upplýst, að það er komin út bók, sem komin er á markaðinn hjá Snæbirni Jónssyni bóksala, sem er að vísu ekki talin sérstaklega áreiðanlegt plagg, en skýrir frá ýmsum staðreyndum. Hún skýrir frá því, sem vitað er, að leyniþjónustukerfi stórveldanna er veruleiki, og þar er talið, að miðstöð leyniþjónustunnar yfirleitt fyrir ýmis stórveldi hafi verið í Danmörku. Og svo mikið er víst, að af flestum var þessi leyniþjónusta Þýzkalands talin lélegasta leyniþjónustan. Og það er ekkert leyndarmál, að stórveldin hafi leyniþjónustu, því að oft er skýrt frá því í fréttum, að leyniþjónusta þessa eða hins lands á þessum og þessum stað hafi komizt að þessu eða hinu. Það er talið, að leyniþjónusta eins ríkis hafi komið til lögreglunnar dönsku og sagt, hverjir voru þýzkir njósnarar, því að þeir höfðu gagnnjósnir. Og þeir, sem störfuðu í þeirri leyniþjónustu, gátu meira að segja bent lögreglunni á það, að ekki væru allir heilir, sem ynnu í lögreglunni dönsku. Þannig er leyniþjónustukerfið. Og það er vitað, að leyniþjónusta er að einhverju leyti rekin enn. Þess vegna er það vitanlega alveg röng mynd, sem hér er gefin, a. m. k. eins og hæstv. dómsmrh. flytur mál sitt. Þessi leyniþjónusta — ja, væntanlega er hún engin í þessu landi nú, ég þykist vita, að hæstv. dómsmrh. mundi vita um það og mundi vera búinn að birta almenningi það, ef svo væri, að hún væri hér einhver, eftir þeim kröfum, sem hann gerði til mín, svo að við getum verið rólegir yfir því, að það er náttúrlega engin leyniþjónusta hér nú.

Þá kem ég að því, sem var ásökun á mig í ræðu hans. Þá er það fyrsta, að í bréfum, sem ég hefði fengið frá sendiherra Íslands í Kaupmannahöfn, hefðu verið upplýsingar um það, að hér heima á Íslandi væri njósnakerfi og væri miðstöð þess í Danmörku. Það kom fram, þegar hæstv. dómsmrh. las upp þessi bréf, að það hefði komið aðvörun eftir aðvörun til mín sem ráðh. um þetta. Og ég er viss um, að það hafa fáir eða engir skilið þetta á annan veg en þann, að gefið væri í skyn, að það hefðu legið fyrir upplýsingar, sem mér hefðu verið gefnar með skrifum einhverra innlendra eða erlendra manna, sem ég hefði dulið fyrir meðráðh. mínum og stungið undir stól. Mér hafa nú verið lánuð þessi bréf, og ég mun lesa þau upp, og geri það hiklaust, vegna þeirra vinnuaðferða, sem ég hef verið beittur hér. Og ég mun bera hér á Alþ. fram kröfu um það fyrst, að bréfin verði fjölrituð og afrit þeirra afhent hverjum einasta hv. þm. Og það er ekkert í þessum bréfum, sem nú má ekki birta, nema tvö eða þrjú nöfn á mönnum erlendis og nafn á landi, sem mætti sleppa öllu í fjölritinu. Og ég mun í öðru lagi gera kröfu um það, að þessi bréf verði á sama hátt birt allri þjóðinni, og þá mun það sjást, á hverju blöðin hafa bygga það, að ég hafi stungið skjölum um þessi mál undir stól, sem hæstv. dómsmrh. vildi læða inn, að ég hefði gert. Þá getur þessi málflutningur skýrzt, og það getur líka haft áhrif á aðstöðu hæstv. ráðh. Og eins og þessi málflutningur þessa hæstv. ráðh. hefur verið, er rétt að hv. þm. fái að heyra úr þessum bréfum. Bréfin eru frá 2. marz, 10. marz og 28. marz 1939, og svo kemur hér fram maður á þingi eins og hv. fyrrv. utanrrh., 4. þm. Reykv., og vitnar um það, að ég hafi ekki lesið upp fyrir meðrh. mínum bréfin, maður, sem kom í ríkisstj. mánuði eftir að fyrsta bréfið kom og eftir að öll þessi þrjú bréf komu og eftir að búið var að gera ráðstafanir, sem gera þurfti vegna þessa. Seinasta bréfið af þessum umræddu bréfum var skrifað 24. jan. 1940, og það kannast hv. 4. þm. Reykv. við að hafa fengið að vita um efnið úr, þó að hann minntist þess ekki, að það hefði verið lesið upp fyrir sér.

Ég hef sterkari vitni um þessi mál en hæstv. dómsmrh., því að eftir minni till, var byrjað strax að rannsaka þessi mál, sem ég kem að seinna. Ég minntist á það í utanrmn. og gerði það að till. minni og beindi til ríkisstj., að nú væru tekin fram þessi bréf og reynt að leita fyrir sér í Danmörku um upplýsingar og hjá Bandamönnum í skjölum, sem fundizt hafa hjá Gerlach, og leitazt við að finna, hvaða menn, innlendir og útlendir, kynnu að vera riðnir við njósnarstarfsemi. Og mér er hið mesta áhugamál að fá flett ofan af því, hvílíkur nazisti ég á að vera og jafnvel Gestapomaður. Því að hæstv. ríkisstj. hafði ekki áhuga fyrir þessu máli fyrr en ég benti henni á það í utanrmn. Þá könnuðust menn við efni bréfanna, jú, jú, sagði hæstv. forsrh. Það kom ekki fram í bókuninni um þetta annað en að allir könnuðust við bréfin, sem í ríkisstj. voru með mér, er þau komu. Sjálfsagt að taka þau fram.

Þá kem ég að efni bréfanna. Það er þá fyrst bréfið frá 2. marz 1939. Þetta bréf, sem ég hef afrit af hér fyrir mér, er eingöngu um það, að það séu njósnir í Danmörku og að hvert ríki verði að hafa lögreglu og ala upp lögreglu til þess að geta litið eftir þessum njósnum í sínu landi. Og það er sagt hér í bréfinu, að erlendir lögreglumenn séu sannfærðir um það, að hér séu sendistöðvar á fleiri stöðum á Íslandi, og enn fremur er hér stungið upp á að senda þegar mann til þess að kynna sér þessi gögn, en hæstv. dómsmrh. gaf í skyn, að þar væru upplýsingar um sekt manna hér heima á Íslandi, en það er ekkert um það í þessu bréfi, heldur er hér sagt, að það þurfi að senda lögreglumann til Danmerkur til þess að kynna sér þessi mál þar og aðferðir lögreglunnar í þessum málum. En það er m. a. tekið fram í þessu bréfi, að sá maður þurfi að vera heiðarlegur, þagmælskur og gætinn. M. ö. o., bréfið er um það, að vegna þess að þeir hafi almenna sannfæringu fyrir því, að hér á Íslandi sé, eins og annars staðar í löndum, um njósnarstarfsemi að ræða, þá þurfi að senda mann út til þess að búa hann undir það að sinna þessu starfi, að hafa upp á njósnum hér á Íslandi, komast fyrir njósnir og afstýra þeim. Í þessu bréfi eru ekki nokkrar minnstu upplýsingar um raunverulegar njósnir, sem vitað sé um í einstökum tilfellum, og það eru ekki settar fram í þessu bréfi neinar líkur fyrir því gagnvart einstökum mönnum og ekki einu sinni gefið svo mikið í skyn, að teljast megi minna en líkur (þ. e. engar dylgjur), og ekkert er í þessu bréfi, sem á skylt við líkur fyrir sekt nokkurra manna hér heima á Íslandi, hvorki innlendra né útlendra — hér heima á Íslandi, segi ég.

Svo er bréf frá 10. marz. Þar segir, að benzín muni hafa verið grafið í jörð og komið fyrir hér í fjörðum. Hérna er sagt frá, að sprengdir hafi verið togarar í vissu landi. „Bak við þennan verknað stendur útbreidd organisation víða um land, sem á rætur sínar að rekja — hvert? Má ég segja það? (Dómsmrh.: Fyrir mér). Leyfir hæstv. ráðh. það fyrir hönd ríkisstj.? (Dómsmrh.: Fyrir mér. — Forsrh.: Má ég sjá, hvað stendur í skjalinu?). Já, gerið svo vel, ég ætla að bíða á meðan. (Forsrh.: Ég sé ekki þetta nafn, hvar er það?). Það er þarna undirstrikað með rauðu. (Forsrh.: Það stendur hér, að þetta sé trúnaðarmál). Já, ég veit það, og það er eðlilegt, að þessi hæstv. stj. geri sama við svona leyndarmál og hver ríkisstj. gerir, þegar eitthvað er upplýst um ríki, sem vinsamleg skipti eru við. Hæstv. ráðh. veit, að ekki hefði komið til mála, að ég hefði lesið þetta upp, en það er þó krafa, sem hæstv. stj. gerir til mín. En það, sem er upplýst, er það, — ég ætla ekki að lesa nafn ríkisins, — en þessi starfsemi, sem sé í vissu landi, hafi það aðalmark að vinna tjón á skipum Þjóðverja, Ítala og Japana hvar sem er í heiminum. Þessi starfsemi sé stöðugt að færast norður á bóginn og það geti vel komið til mála, að hún sé komin til Íslands, og þessi starfsemi hafi jafnvel það starf með höndum að grafa benzín í jörð og sökkva því í firði til þess að geta haft það til hernaðarnota síðar. Ég ætla ekkert að lýsa því fyrir áheyrendum eða öðrum, að vitanlega gerir hæstv. stj. skyldu sína með því að annast, að svona hlutir séu ekki birtir. En vitanlega verðum við jafnframt, eins og ég kem að síðar, að gera þá skyldu okkar að gera ekki hluti, sem gætu kannske verið sama og hernaðaryfirlýsing gagnvart þjóðinni, sem hlut átti að máli. Og svo segir yfirmaður leynilögreglunnar og undirstrikar það, að gera megi ráð fyrir mikilli slíkri starfsemi á Íslandi og meiri en flestir hafi gert sér í hugarlund. Þá undirstrikar hann, að þótt ekki liggi fyrir sannanir um þetta, þá sé sjálfsagt að senda mann til Danmerkur til að kynna sér þessi störf og til að geta starfað að málunum, en engar minnstu líkur eru færðar fram fyrir sekt nokkurs manns.

Nú kemur þriðja bréfið. Sendiherrann segir, að það sé sérstök mappa með skjölum um Ísland, sem hann hafi fengið frá leynilögreglunni dönsku, og að sjálfsögðu sé þar að finna allt, sem eitthvað snerti Ísland, því að það er eitt, sem leyniþjónustan þar gerir betur en flest annað, og það er að raða niður skjölum, og það er afar mikils vert að raða slíkum skjölum niður á réttan hátt. Ég skal lofa ykkur að heyra, hvað hann segir um það. Hann segist hafa farið gegnum þessi skjöl og þau séu ekki sérstaklega merkileg. Það séu aðallega bréfaviðskipti milli manns, sem er nefndur, og Pflugk-Hartungs, sem fram hafi farið frá 1. júlí 1936 og fram í september 1938. Svo kemur, hvert er efni bréfanna, að þeir muni geta útvegað Þjóðverjum hafnir á Vesturlandi, en bréfin séu ómerkileg og heldur draumórakennd. Öll eru bréfin um að koma hér á eftirlitslögreglu og að senda mann til að kynna sér, hvernig eigi að líta eftir þessum málum hér heima með svipuðum hætti og gert hefur verið annars staðar, þó að ekki hafi verið hægt að gera mikið þann stutta tíma, sem ég var við völd á eftir. Það hefur ekki verið hér nein öryggisþjónusta og er alls ekki nú, nema hæstv. dómsmrh. hafi komið henni á og geti fullvissað okkur um, að hér sé alls engin hættuleg leyniþjónusta á Íslandi frá neinum.

Í seinasta bréfinu, sem sendiherrann skrifar, segir hann, að þá gruni, að hér sé leynistöð einhvers staðar, henni séu sendar fregnir frá Danmörku, og hún sendi þær síðan áfram til þýzku stjórnarinnar, og svo er brýnt fyrir okkur að finna þessa stöð, sem þetta verk muni vinna. Það tókst líka, vegna þess að sendur hafði verið maður út, sem bæði í Danmörku og sérstaklega í Þýzkalandi lærði, hvernig á að finna slíkar stöðvar. Ég vil ekki segja, hver sú aðferð var, sem notuð var, því að það getur verið, að hæstv. dómsmrh. gæti komið sú aðferð vel, ef til þyrfti að taka, en þetta verk var unnið með mikilli nákvæmni, þangað til lögreglustjórinn kom til mín og sagði : „Við vitum, að stöðin er í þessu húsi, hjá þýzka ræðismanninum.“ Nú er bannað að landslögum, að nokkur maður hafi stöð og sendi nokkrar fréttir, hann þarf ekki að vera neitt sannur að njósnum, heldur er það brot á landslögum að hafa sendistöð. Nú má ekki blása sig út á þessu. Ræðismaður getur sent milli landa fregnir í pósti á dulmáli eftir geðþótta, en þrátt fyrir það álitum við, að sjálfsagt væri að koma í veg fyrir, að þessi stöð væri notuð, og það var hægt að komast að því, hvenær þessi stöð hreyfði sig. Þá var það, sem lögreglustjórinn í Reykjavík, sem nú er verið að reyna að stimpla sem ótrúan sinni þjóð, og að því kem ég síðar, kom og sagði, að það væri fullsannað, að þýzki ræðismaðurinn, Gerlach, hefði sendistöð og nú væri hægt að umkringja húsið og taka þessa stöð. Ég viðurkenni, að þessi dirfska, sem hann var reiðubúinn að framkvæma, var ekki framkvæmd, því að það hefði kannske kostað þessa þjóð það, sem við hefðum ekki viljað láta kosta hana. Ég vildi sjá, að nú sé það eftirlit með fulltrúum erlendra ríkja, að slíkt væri gert, ef þeir nú stunduðu þessa starfsemi, sem þeir vitanlega ekki gera. Ég vildi sjá, að hæstv. núv. dómsmrh. gengi harðara að nú, ef til þess kæmi, en gert var í þetta sinn. Lögreglustjórinn spurði mig, hvað ætti að gera. Ég ráðgaðist við meðráðh. mína, og það varð að samkomulagi að senda lögreglustjórann einan heim til þýzka sendiherrans og tilkynna honum, að við vissum, hvenær stöðin hreyfði sig, og ef hann hreyfði hana oftar, þá yrðu þegar í stað gerðar opinberar ráðstafanir gegn honum og hann rekinn úr landi.

Nú verða menn að athuga, að það eru ekki sannaðar njósnir á þennan mann, þó að hann noti senditæki, heldur var aðeins eitt og annað, sem benti til þess. Lögreglustjórinn vann þetta verk með nokkrum sérfróðum mönnum, sem höfðu verið sérstaklega æfðir undir þetta starf og ég sé ekki ástæðu til að nefna á þessu stigi, en þeir lögðu borðleggjandi sannanir fyrir, að þarna væri stöðin, og það var mjög vel unnið verk. Ég er ekki í nokkrum vafa um að á því stigi var vitanlega ekki hægt — og um það voru meðráðh. mínir mér sammála — að gera húsrannsókn hjá ræðismanninum og umbylta þar öllu, en það stóð vissulega ekki þar á lögreglustjóranum, en ég áleit og ríkisstj., að það væri of djarft teflt, því að það gæti leitt af sér of alvarlega hluti. En ef það þætti nú ekki of djarft að fara með her manns inn í hús fulltrúa erlends ríkis og gera húsleit hjá honum, þá ætti a. m. k. að vera leyfileg sú dirfska að birta nafn annars erlends ríkis, sem hefur stundað hættulega starfsemi, jafngóðar heimildir og eru fyrir því, frá þáverandi sendiherra Íslands í Kaupmannahöfn, núverandi hæstv. forseta Íslands, en nú má ekki einu sinni nefna nafn þessa ríkis, þó að í bréfi sendiherrans sé sagt, að það hafi stundað hér hættulega starfsemi.

Nú vil ég vegna þess, hvernig þetta mál hefur verið túlkað um þessi bréf, að ég hafi stungið gögnum undir stól og þar með svikið mitt eigið land, gera þá kröfu og færa fram þá ósk, að þessi bréf verði birt orði til orðs fjölrituð, lögð fyrir hvern þm. og svo taki þeir ákvörðun um, að þau séu birt orði til orðs. Ég ætlast ekki til, að hæstv. ráðh. svari þessari ósk nú, en ég vil krefjast þess, að bréfin verði birt og það yrðu þá strikuð út úr þeim þau 2–3 nöfn, sem ekki þykir mega birta opinberlega. Þar sem þessi einkabréf til mín hafa verið notuð sem árásarefni á mig, þá mun ég beiðast liðs hér á þingi, að Alþingi verði við þeirri ósk minni að birta bréfin orði til orðs. Ég er ekki á móti því, að bréfið, sem hæstv. dómsmrh. las upp frá lögreglustjóra, sé birt líka lið fyrir lið. Ég finn ekki, að í því sé neitt, sem sýni, að ég hafi átt að vera í einhverju sambandi við Gerlach og nazista, og ég finn ekki það, sem hann gerði þar að einhverri rúsínu handa blöðunum.

En nú vil ég spyrja. Ég vakti máls á því í utanrmn. fyrir 2–3 mánuðum, — ég man ekki daginn, — að tekin yrði upp rannsókn á því, sem væri nauðsynlegt, og þar tek ég undir með hv. 2. þm. Reykv., það er vissulega mál til komið, að hafin sé almenn rannsókn á því, hvernig menn hafi hagað sér hér fyrir styrjöldina. Hafi það þótt ónauðsynlegt áður en þau gögn komu fram, sem nú eru í ljós komin, þá er þess sannarlega ekki vanþörf nú. Hæstv. dómsmrh. sagði, að Gerlach hefði verið hingað sendur til að stofna fimmtu herdeild. Varð honum ekkert ágengt? Stofnaði hann þessa herdeild? Hverjir voru í henni? Nöfnin fram! Ég vona, að honum hafi ekkert orðið ágengt, ég vona, að svo sé. Vitanlega er mér ljóst, að ekki kemur til mála að leyfa neinum Þjóðverja landvist hér fyrr en mál hans hefur verið nákvæmlega rannsakað fyrst. Nú munu að vísu ekki vera til í Danmörku þau skjöl, sem þar voru fyrir styrjöldina, nazistar munu hafa flutt þau burt, því að eins og tekið er fram í þessum bréfum og hæstv. dómsmrh. getur fengið upplýst hjá þeim manni, sem fór utan til að athuga þessi skjöl, að þar voru engar upplýsingar um sekt erlendra eða innlendra manna, sem hægt var að byggja á, í þessari skýrslu, sem til var í Danmörku fyrir styrjöldina. En nú, þegar skýrsla Gerlachs liggur fyrir, þá er aukin nauðsyn á, að málin séu rannsökuð. Það er líka til skrá með 7 millj. nafna yfir þá menn, sem átti að vera hægt að treysta utan Þýzkalands fyrir styrjöldina. Ef hæstv. dómsmrh. sendi mann utan í 5–6 mánuði til að rannsaka þessi mál, þá væri vafalaust hægt, að fá upplýsingar. Það er nefnilega miklu meiri nauðsyn að rannsaka þessi mál nú, eins og hv. 2. þm. Reykv. tók fram, heldur en að hafa í frammi aðra eins málfærslu og þá, sem nú er gert hér, þegar verið er að gefa bendingar, fara með meira og minna órökstutt mál um, að hér hafi verið fimmta herdeild og starfandi nazistar, innlendir og erlendir að því er manni skilst, setja þetta í blöðin. Menn verða að gera sér ljóst, að þegar búið er að segja a, þá verður líka að segja b. Við verðum að gera hreint fyrir okkar dyrum. fyrst búið er að birta fyrir öllum heiminum, að svona hafi það verið. Og þegar til er skrá með 7 milljónum nafna yfir menn, sem treysta megi, víðs vegar um heim, þá eru þar væntanlega nöfn ýmissa Íslendinga, sem nazistar hafi getað treyst. Hæstv. dómsmrh. ætti að vera annt um að ná í þessa skrá, því að eftir hans lýsingu ætti mitt nafn að vera þar ofarlega á blaði og einnig lögreglustjórans, og ég ætla að reyna að sjá um, áður en þessari viðureign lýkur, að meira verði gert í þessu en gert hefur verið til þessa. Það er auðsætt mál, og það vænti ég að allir hv. þm. skilji og einnig hæstv. dómsmrh., að þegar hann er búinn að segja frammi fyrir öllum heiminum, að Gerlach hafi verið hér til að stjórna fimmtu herdeild, þá verði að sýna heiminum, að við rannsökum málin og birtum nöfnin, ef einhver eru. Við skulum athuga, að það er gefið mál, að þau ummæli, sem hér hafa verið viðhöfð í blöðum í dag, verða símuð út. Það verður sagt, að þetta séu orð dómsmrh., það verða send símskeyti um, hvað hann hafi sagt um það, hvernig menn hér á Íslandi hafi hagað sér fyrir styrjöldina. Það er því vitað mál, að ekki verður hægt að komast hjá að gera þessar ráðstafanir, og það hefði vitanlega verið nauðsynlegt þrátt fyrir það.

Þá vil ég fara nokkrum orðum um það, en ég kem inn á meginþráð málsins aftur síðar, sem um það hefur verið sagt, að þessir menn, sem nú er rætt um að veita landsvistarleyfi, hafi helzt kosið að fara aftur til Þýzkalands. Kona eins þessara manna hringdi til mín meðan ég var að borða og sagði, — ég hef hennar orð fyrir því, ég veit ekki, hvaðan hún hefur það, — að þeir hefðu heldur kosið að fara til Íslands en Þýzkalands, þegar þeir færu frá Englandi. Mig minnir, að hæstv. dómsmrh. hafi haft gagnstæðar upplýsingar, frá utanrrn., og ég skal ekki um það segja, en þessi kona minntist á það við mig og bað mig að gefa þessar upplýsingar.

Þá kem ég að skýrslu lögreglustjórans í Reykjavík, sem hæstv. dómsmrh. las upp. Ég sé satt að segja ekki, í hvaða tilgangi þessi skýrsla hefur verið lesin upp, nema ef það væri til þess að gefa málinu þann blæ, að ég sé einhver erkinazisti og jafnvel verra en það, og gefa bendingar um það undir rós eftir þeim málflutningi, sem hann hafði hér, að lögreglustjórinn sé það einnig. Eitt af því, sem hann gerði sér sérstaklega mat úr við þennan undirmann sinn, var að smjatta á því, að honum hefði verið tilkynnt, þegar hann kom til Þýzkalands, að hann væri gestur Himmlers. Getur maður, sem fer til Danmerkur og Þýzkalands til þess að kynna sér þessi mál, — og það er fjöldi manna, sem kynnt hefur sér þessi mál í ýmsum löndum, og í þessu tilfelli var kannske ekki sem verst að komast inn í þetta kerfi hjá þeim í Þýzkalandi, — hvað getur maður, sem er sendur út til þess að kynna sér þessi mál, gert að því, þó að honum sé tilkynnt, að hann sé gestur Himmlers, sem er kurteisisform, sem var í Þýzkalandi á þessum tíma? Það var reynt þar að sýna mönnum sérstaka kurteisi, vitanlega til þess að koma sér í mjúkinn hjá mönnum. En ég hygg, að enginn maður hafi sýnt það betur — kannske, að margur maður hafi sýnt það eins vel, en kannske líka enginn betur en lögreglustjóri, að þessi tilkynning frá Himmler hafði engin meiri áhrif á hann en ætlazt mátti til af honum og ætlazt var til af honum sem góðum Íslendingi. Ég verð að segja um þetta atriði, að það vekur undrun mína, að hæstv. dómsmrh. skuli koma hér fram með þeim vinnubrögðum, sem hann þannig beitir gagnvart sínum undirmanni. Látum vera, þó að hann ráðist á mig út af t. d. húsaleigufrv. eða þess háttar málum. En það stígur yfir öll takmörk að reyna að rægja undirmann sinn á þennan hátt, sem hann gerði, og koma svo að lokum með smjaðursleg ummæli um það, hvað þessi maður, lögreglustjórinn, hafi nú rækt vel skyldu sína. Það þurfti að gera til þess að koma með eins konar smyrsl á þau sár, sem hann í höggorustu sinni, sem hæstv. dómsmrh. hóf til þess að ná til mín,veitti lögreglustjóranum. En hæstv. dómsmrh. á kannske eftir að reyna, hversu vel hann nær til mín. Og ég vildi spyrja, fyrst gefið er í skyn, að lögreglustjóri sé eitthvað grunsamlegur: Hefur hæstv. dómsmrh. skrá yfir þá menn, sem farið hafa út til Þýzkalands og nú eru komnir aftur hingað heim, sem starfað hafa í Þýzkalandi við þýzka þjónustu? Gæti hann að sér í æði sínu út af því að ná til mín út af húsaleigufrv., hvað hann er að segja! Ég hef verið í Þýzkalandi. Og hefur ekki borgarstjórinn í Reykjavík verið í Þýzkalandi? Hefur hæstv. dómsmrh. ekki verið sjálfur í Þýzkalandi? (Dómsmrh.: Ég hef verið líka í Þýzkalandi). Já, og setið í veizlum þar. Kannske hæstv. dómsmrh. sé líka fyrir það eitthvað hættulegur sjálfur? Til hvers er þessi upplestur! Hæstv. dómsmrh. skal fá að vita það, að þegar ég flyt þessa till., þá geri ég það vegna þess, að ég þori það, þó að það eigi að beita þessum vinnuaðferðum, því að ég þori að ganga undir próf út af afskiptum mínum af utanríkismálum. Og ef ég hef, að svo miklu leyti sem ég hef sinnt utanríkismálum, gert einhverja hluti vel, þá má það líka koma fram til þess að vita um, hvort það gefi höggstað á mér fyrir það, sem ég hef gert gagnvart Þjóðverjum. Ég hafði með utanríkismál að gera, þegar Þjóðverjum var neitað um að hafa flugvelli hér á landi. Það var þannig ákveðið bæði að vilja þjóðar og einnig Alþ. Og þá vorum við fyrsta þjóðin, — eins og birtist í blöðum víða í veröldinni, — sem neitaði Þjóðverjum um land fyrir flugvelli. Ef við hefðum ekki neitað þeim um flugvelli hér á landi, þá mundum við, — eins og forsrh. Breta sagði eitt sinn,. — þá mundum við ekki standa í þessari stofu, sem við stöndum nú í, því að þetta hús væri þá ekki til.

Hefur hæstv. dómsmrh. skrá yfir þá, sem heimsóttu mótin í Lübeck í Þýzkalandi, sem haldin voru af Nordische Gesellschaft, sem heimsóttu nazista þar og sátu á móti með þeim? Ef það á að vera mælikvarði á menn og afstöðu þeirra til nazismans, að þeir hafi komið til Þýzkalands, þá væri ekki úr vegi að athuga það atriði. Ég er ekki að drótta neinu að þeim mönnum, sem það mót sátu í Lübeck. Þeir Íslendingar, sem það mót sátu, hafa kannske ekki sem góðir Íslendingar vitað fyrirfram, til hvers sú starfsemi var, sem hafði það mót. En ef fara á að vera með aðdróttanir gagnvart einhverjum mönnum, sem farið hafa til Þýzkalands, verður hæstv. ráðh. að gera sér ljóst, hvað þá á að gera til samræmis gagnvart öðrum mönnum, sem þangað hafa farið líka. Ef hæstv. dómsmrh. getur gert það, sem hann hefur gert gagnvart undirmanni sínum, og gert það hér í hæstv. Alþ., verður hann að gera sér ljóst, hvað honum ber að gera gagnvart þeim, sem sátu þetta mót í Lübeck.

Það, sem við þurfum að fá, er rannsókn, en ekki dylgjur um það, hvað þessi og þessi maður hafi kannske gert. Við þurfum ekkert rósamál um þetta á Alþ., heldur rannsókn um þetta. Og um þetta eiga svo að koma fram skýrslur á Alþ., og ég mun hjálpa hæstv. ráðh. við það, að loknu máli mínu.

En hvað hefur svo hæstv. dómsmrh. sagt um lögreglustjórann? Hæstv. dómsmrh. lét orð falla um það, að hann hefði komið vel fram. Ég fullyrði, að starf hans sem lögreglustjóra, meðan setuliðið var hér, það starf, sem hann hefur unnið í sambandi við það að halda uppi lögum og reglu meðan setuliðið var hér, er eitt með beztu embættisverkum, sem unnin hafa verið. Haldið þér, hv. þm., að það sé vandalaust að stýra lög reglu þar, sem er í landi erlendur her, jafnmiklir árekstrar og verða alls staðar þar, sem slíkt lið er í landi? Haldið þér, að það hafi verið vandalaust fyrir lögreglustjórann að stjórna lögreglunni þannig, að útkoman yrði eins og raun varð á, að ekki nokkurn tíma komu umkvartanir til ríkisstj., þó að lögreglan hér gegndi í því efni skyldu sinni með því að ganga út í opinn dauðann og fórnaði sér til þess að afvopna brjálaða hermenn, sem alltaf kemur fyrir að þurfi að gera, hversu góðan her sem um er að ræða. Hæstv. dómsmrh. ætti að kynna sér, hvaða verk lögreglan hér hefur unnið á stríðstímanum, og a. m. k. kynna sér bréf frá erlenda setuliðinu, sem það skrifar eftir að það er farið úr landi, sem eru þakklæti fyrir það, hversu vel lögreglustjórinn hér hafi unnið í þessum efnum. Ég efast um, að mörg slík bréf séu til hjá öðrum embættismönnum. Við skulum segja, að þessum embættismanni, lögreglustjóra, hafi ekkert verið þakkandi fyrir þetta. En hver eru launin, sem hæstv. dómsmrh. veitir þessum manni, eða viðurkenning fyrir störf hans? Og þegar setuliðið hefur veitt lögreglustjóra þessa viðurkenningu, hvernig getur þá hæstv. dómsmrh. yfirsézt þannig að taka ekki fram, hversu vel þessum manni, lögreglustjóra, hefur tekizt starf hans meðan setuliðið var hér, heldur reynir að gera hann grunsamlegan — jafnvel þó að ég skýrði frá prentvillum í máli, sem komið hefur fram hér um byggingu verkamannabústaða, og segði, að það sé eitthvað af því úr mínu frv. — hvers vegna fer hæstv. dómsmrh. fyrir það að hlaupa þannig á sig að flytja hér aðrar eins ræður og hann hefur gert í þessu máli? Aðrar eins ræður held ég, að aldrei hafi verið fluttar hér á hæstv. Alþ. af dómsmrh., sem betur fer. Því að ef lögreglustjóri er eitthvað grunsamlegur fundinn, eins og hæstv. dómsmrh. vildi gefa í skyn, að hann væri, þá á hann vitanlega að rannsaka það mál og leggja fyrir Alþ., en ekki að vera með dylgjur um þetta. Framkoma hæstv. dómsmrh. í þessu efni hefur verið þannig, að hann ætti sannarlega skilið að fá vantraust og verða felldur hér á hæstv. Alþ., því að ef nokkuð er hæft í þeim dylgjum, sem hann vill breiða út í þessu efni, þá á vitanlega að hefja rannsókn í málinu.

Ég hef komið að því, að það er alveg eðlilegt, að hv. 4. þm. Reykv., fyrrv. hæstv. utanrrh., hafi ekki lesið bréf það, sem ég vitnaði í, né önnur tvö bréf, sem ég gat um, svo að hann muni. Það er eðlilegur hlutur, að hvorki hann né aðrir ráðh., sem jafnt honum komu í ríkisstj., hafi lesið þau, því að þau voru send áður en þessir menn komu í ríkisstj. Það er kannske óviljaverk af honum að nefna þetta, en það er þá líka ógætni. En hæstv. dómsmrh. þykir samt sem áður nógu heiðarlegt að vitna til þessara ráðh. um það, að ég hafi ekki sýnt þeim þessi bréf. Annaðhvort sýnir þetta fljótfærni hæstv. dómsmrh. eða þetta er fram borið móti betri vitund, og því hef ég haldið fram, að svo væri. En það er fljótfærnislegur ákafi, til þess að veitast að mér, sem knýr hæstv. dómsmrh. til þess að gera sig sekan um þetta frumhlaup hvað eftir annað.

Þá var það eitt, sem minnzt var hér á hvað eftir annað, og það var kannske eitt af því skoplegasta. Nú man ég náttúrlega ekki eftir því, að það kæmi fyrir, sem mér er hér borið á brýn í því efni, að ég hafi komið í veg fyrir það eftir kröfu þýzka sendiherrans, að sýndar væru skopmyndir af Hitler og Mussolini. (Raddir af þingbekkjum.: Hann nefndi Stalín). Ég geng út frá því, að það hafi verið mismæli. En látum svona vera. Það sýnist kannske vera ágengni að skipta sér af slíku. En er hæstv. dómsmrh. alveg viss um það, ef fara ætti að setja hér upp eða sýna grínmynd af Stalín, að hann, hæstv, dómsmrh., gerði enga aths. um það? (Forsrh.: Þetta höfum við nú mátt þola báðir). Það er náttúrlega alveg rétt. En ég ætla þá að spyrja hér, úr því að talað er um einhverja sérstaka undanlátssemi við afskiptasemi annarra ríkja manna í þessum efnum: Kannast hæstv. ríkisstj. við að hafa skrifað blöðum bréf um þetta og hótað mönnum refsingum, ef þeir skrifuðu um viss ríki eins og þeir skrifa nú? Það skyldi þó ekki vera, að það væri a. m. k. ekki gengið eins langt í því nú og fyrr. Þessi bréf eru til, og þau hafa verið skrifuð blöðunum. Hefur ekki verið orðað við vissa bíóeigendur, að of lítið væri sýnt af kvikmyndum frá vissum löndum? Það skyldi þó ekki vera, að þegar við erum að tala um afskiptasemi nú, þá væri í ríkisstj. dómsmrh., sem sjálfur hefði einhverja svipaða afskiptasemi haft í frammi nú eins og hann taldi, að hefði verið gert áður, sem hann taldi undirlægjuhátt af öðrum. Menn eru ákaflega gunnreifir nú. Þarna er þjóð, sem liggur ákaflega lágt nú, sem þessir menn eru af, sem þáltill. fjallar um, þjóð, sem með framferði sínu, með því að láta ginna sig til fylgis við grimma valdhafa, verðskuldar að vissu leyti sín örlög. En mínar tilfinningar eru ekki þannig, að mig langi til að sparka í þessa þjóð, eins og hún er nú stödd, þó að hún eigi við að búa sín maklegu málagjöld. Og mínar tilfinningar eru ekki þannig, að ég sé á móti því að bera fram á Alþ. till. um, að þessir menn, sem till. er um, þótt Þjóðverjar séu, megi koma til kvenna sinna og barna, ef skilyrðum, sem sett eru fram í þáltill., er fullnægt. Og það þarf mikil brjóstheilindi til þess að breiða það út, að á bak við þá till. liggi eitthvað varhugaverður tilgangur. Gerið svo vel og gerið í því efni hvað sem þið viljið. En ég er sannfærður um það, hver endir er alltaf á því að flytja rétt mál, og ég tel þetta rétt mál, þó að vitanlega megi deila um það eins og annað. Og þegar verið er að dæma um mig fyrir það, að ég hafi sýnt hér einhverja sérstaka linkind gagnvart Þjóðverjum, þá held ég, að aldrei hafi verið gengið lengra í því að sýna þeim tillitssemi en alltaf er gert við vinveitta viðskiptaþjóð, að reyna að koma þannig fram, án þess að niðurlægja sig, að ekki séu slitin vináttubönd við vinveitta viðskiptaþjóð. Og ég geri alveg ráð fyrir því, að þegar blöðunum er skrifað um eitt stórveldi og þeim hótað refsingu, ef þau skrifi um það eins og þau hafi gert, — ég geri alveg ráð fyrir því, að þar sé á ferð ekkert annað en „undirlægjuháttur“ og það á verulega háu stigi, og það hjá þeim mönnum, sem talað hafa um, að undirlægjuháttur hafi átt sér stað hjá mér gagnvart Þjóðverjum. Og þeir menn, sem flytja ræður um það, að við hefðum átt að vera röggsamir við nazista, sögðu eitt sinn, að það væri „smekksatriði“, hvort maður væri með nazistum eða móti. Sá tími er náttúrlega gleymdur. Þýzka þjóðin liggur nú lágt, og nú er hægt að vera ákaflega harðorður. E. t. v. hafa sumir þeir, sem nú eru harðorðir um nazista, ekki staðið þessum mönnum einhvern tíma alls kostar fjarri.

Mér þykir vænt um, að þessar umr. hafa farið hér fram. Ég vona, að þær leiði fyrst og fremst í ljós, að það er réttlátt að leyfa, að þeir menn, sem voru fluttir héðan af landi burt án okkar tilverknaðar, voru saklausir og hafa ekkert starfað gegn þessari þjóð, fái að koma heim eins og þeir hefðu aldrei verið héðan burt fluttir. Þessir flutningar þýzkra manna hafa átt sér stað frá fleiri þjóðlöndum en hér er um að ræða. Ætla ég ekki að nefna ríki í því sambandi. En ein kona hefur sent mér úrklippu úr blaði, þar sem skýrt er frá því, að viss þjóð, sem ég ekki nefni, hafi flutt Þjóðverja til Þýzkalands.

En það, sem ég vil að lokum segja, er þetta: Ég mun leita til hæstv. ríkisstj. og óska eftir því, að bréf, sem blöðin í dag hafa notað til þess að gera mig tortryggilegan, verði birt orði til orðs, nema strikað sé út nafnið á landinu, sem undirstrikað er með rauðkrítinni og getið hefur verið, að undirstrikað sé þannig. Ég mun enn fremur fella mig við, að út verði strikað nafn á manni erlendis, sem þar er nefndur. Ef hæstv. ríkisstj. verður ekki við þessu, sem ég þó veit, að hún verður, þá mun ég leita til hæstv. Alþ. um það, að það leggi fyrir hæstv. ríkisstj. að birta þessi bréf til mín, sem um hefur verið rætt í sambandi við þetta mál. — Í annan stað mun ég, vegna ummæla frá hæstv. dómsmrh. um það, að hér í landi hafi starfað víðtæk njósnarstarfsemi og m. a. hafi verið hér 5. herdeild í kringum fulltrúa Þýzkalands, — og þó að hæstv. dómsmrh. hefði ekki borið þetta fram, hefði ég gert það, en nú er það nauðsynlegt, — þá mun ég bera fram á Alþ. till. um að skipa 4 manna nefnd til aðstoðar ríkisstj. til að rannsaka það, hverjir íslenzkir menn það væru utan lands og innan, sem hlynntir hafa verið nazismanum fyrir styrjöldina og starfað hafa í þjónustu hans, og hvaða menn það hafa verið hér á landi, sem nazistar töldu sig geta treyst. Ég álít, að 4 manna n. ætti að aðstoða ríkisstj. við að rannsaka þetta og síðan ætti að senda mann utan til að rannsaka eftir öllum gögnum, sem um þetta mál fengjust, hvaða menn hefðu sekir gerzt um þessa starfsemi. Og ég er um þetta sammála hv. 2. þm. Reykv. og þakka honum sérstaklega fyrir hans álit á þessu, og vænti ég stuðnings við þetta mál af hans hendi. Þessi rannsókn var nauðsynleg, og hún er það eins enn, en nú óhjákvæmileg vegna þess, hvernig hæstv. dómsmrh. hefur um þessi mál talað hér. Það er af þeirri ástæðu mitt álit, að nauðsynlegt sé að skipa þessa 4 manna n. Og að sjálfsögðu yrði þá sendur maður, einn eða fleiri, til þess að rannsaka þann 7 millj. nafna lista, sem til er í Þýzkalandi yfir þá menn utan Þýzkalands, sem nazistar töldu sig geta treyst, og þá jafnframt og ekki sízt þau nöfn, sem standa kynnu Þar í sambandi við Gerlach, svo og nöfn þýzkra manna, sem fluttir voru hér úr landi, Þjóðverja í Danmörku o. s. frv. Það er ekki víst, að nokkur þessara manna, sem ég hef sérstaklega nú til tekið, að ætti að athuga, hvort væru á þessum lista, hafi unnið neitt refsivert athæfi. En mér virðist nauðsynlegt, að þessi rannsókn verði framkvæmd, og ég mun að öllum líkindum flytja þáltill. um það.

Þó að þessar umr. hafi fyrst og fremst snúizt um mig og fyrst og fremst eigi að stimpla mig og ein af þessum konum, sem hér eiga hlut að máli, hringdi til mín í matarhléinu og henni fannst ákaflega leiðinlegt, hvernig ausið væri óhróðri yfir mig í umr. um þetta mál, og hún óskaði, að þetta mál hefði heldur ekki verið flutt en að svona kæmi fyrir — ég segi, þó að þessar umr. eigi fyrst og fremst að stimpla mig sem einhvern misindismann eða grunsamlegan, þá er þetta ekki nema fyrsti leikurinn, sem fram fer í kvöld. Og hvort sem ég get varið mig eða ekki, hika ég ekki við að flytja þetta mál, sem ég tel rétt. Og það kannske ögrar mér enn meir í því efni, að sumir hv. þm. hafa ekki viljað gerast flm. þess, þó að sannfæring þeirra sé sú, að það beri að flytja það, vegna þess að þeir búast við að verða fyrir það ausnir auri. Læt ég þar með lokið máli mínu að sinni.