152. löggjafarþing — 72. fundur,  29. apr. 2022.

húsnæðismarkaðurinn.

[11:11]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina sem er mikilvæg. Það er vaxtahækkunardagur Seðlabankans í næstu viku. Einn stór þáttur sem veldur því að verðbólga vex er húsnæðismarkaðurinn. Við höfum allt frá því að þessi ríkisstjórn tók við, og reyndar þegar á síðasta kjörtímabili, unnið að ákveðnum breytingum á stjórnkerfinu, stjórnsýslunni, til að fá meiri yfirsýn, geta betur vitað og spáð fyrir hvað gerist til að geta brugðist við með réttum hætti. Til þess þarf að vera fullt af verkfærum í lagatöskunni okkar sem eru ýmist til að hvetja á framboðshliðinni eða eftirspurnarhliðinni eftir því hvað á við. Nú er það framboðshliðin. Ég er algerlega sammála hv. þingmanni í því. Það er þó engin spurning, miðað við þá þróun sem við höfum séð, að við höfum byggt nóg á síðustu fjórum árum. Það hefur bara gerst að fólki hefur fjölgað gríðarlega mikið, meira en menn spáðu, og breytingar hafa orðið einfaldlega vegna Covid og alls konar annarra þátta, sem gerir það að verkum að við þurfum að byggja meira. Það þurfa að vera til byggingarhæfar lóðir. Menn hafa kallað eftir að fá meiri pening í stofnframlög í almennar íbúðir og ég er til í að standa með því, en þær lóðir verða að vera til. Þær hafa ekki verið til hjá Reykjavíkurborg. Þær hafa ekki verið til vegna þess að þéttingarstefnan hefur kallað á það. Húsnæðisverð hefur rokið upp og það er minna um lóðir sem eru hæfar til að byggja á almennar íbúðir fyrir þá sem eru tekjulægri í landinu. Reykjavíkurborg hefur að einhverju leyti yfirgefið jafnaðarstefnuna hvað þetta varðar.

Hér var hins vegar verið að kynna síðustu daga að það þyrfti fleiri íbúðir. Ætli það séu ekki í dag um 4.000 íbúðir sem þyrfti að byggja á næstu fimm árum á hverju ári? Þar af þarf Reykjavíkurborg að vera með upp undir 3.000 af þeim (Forseti hringir.) byggingarhæfu lóðum, ekki 2.000 eða 1.800, eins og staðreyndin er í dag. (Forseti hringir.) Þannig að já, auðvitað ber stærsta sveitarfélagið talsverða ábyrgð í þessum málum.