Fara á efnissvæði
IS
EN
PL

Hettusótt

Kaflar
Útgáfudagur

Hettusótt er bráð og smitandi veirusýking sem leggst oftar á börn en fullorðna. Sýkingin er yfirleitt hættulaus og gengur fljótt yfir en hún er þekkt fyrir að valda alvarlegum fylgikvillum sérstaklega hjá unglingum og fullorðnum. Flestir fá hettusótt bara einu sinni á ævinni.

Einkenni

Einkenni sjúkdómsins eru oftast væg hjá börnum en leggjast þyngra á unglinga og fullorðna. Helstu einkenni eru:

  •  Hiti
  • Bólga og særindi í munnvatnskirtlum
  • Erfiðleikar við að tyggja
  • Höfuðverkur
  • Lystarleysi
  • Slappleiki

Smitleiðir og meðgöngutími

Smit berst með úða frá öndunarfærum (t.d. með hnerra). Meðgöngutími sjúkdómsins, það er sá tími sem líður frá því að einstaklingur smitast og þar til sjúkdómseinkenni koma fram, er um 2-3 vikur. Sjúkdómurinn getur verið misalvarlegur, sumir eru nánast einkennalausir meðan aðrir geta orðið mikið veikir og fengið fylgikvilla.

Greining

Grunsemdir um sjúkdóminn fást með læknisskoðun, en staðfesting fæst með mótefnamælingu í blóði eða ræktun veirunnar í munnvatni.

Meðferð

Engin sértækt meðferð er til við hettusótt. Einstaklingum með hettusótt er ráðlagt að drekka vel, vera í hvíld og nota verkjalyf. Halda skal börnum heima þar til einkenni sjúkdómsins hafa gengið yfir. Í alvarlegri tilvikum getur þurft að leggja sjúklinga inn á sjúkrahús.

 

Mynd sem sýnir einkenni hettusóttur, bólgu á hálsi á barniMynd sem sýnir einkenni hettusóttar, bólgu á hálsi á fullorðnum

Fylgikvillar

Alvarlegir fylgikvillar eru sjaldgæfir en geta verið til dæmis; heilabólga, heyrnarskerðing, brisbólga, bólga í brjóstum, eggjastokkum eða eistum. Bólga í síðast töldu líffærunum getur valdið ófrjósemi.

 Unglingar og fullorðnir fá frekar fylgikvilla en börn.

Hvenær skal leita aðstoðar?

Ef grunur er á hettusótt skal hafa samband við næstu heilsugæslustöð

Finna næstu heilsugæslustöð hér.

Forvarnir

Bólusetning gegn hettusótt hófst hér á landi 1989 sem hluti af barnabólusetningum. Í dag eru börn bólusett gegn hettusótt, mislingum og rauðum hundum í einni sprautu við 18 mánaða og 12 ára aldur. Það gefur góða vörn gegn sjúkdómnum.

Margir einstaklingar fæddir fyrir 1985 fengu hettusótt. Flestir einstaklingar fæddir á árunum 1985-1987 fengu seinni sprautuna í almennri bólusetningu, sumir fengu hettusótt og nokkrir hafa fengið tvær sprautur en aðeins ef óskað var sérstaklega eftir því.

Það er hægt að smitast af hettusótt þrátt fyrir bólusetningu en bólusettir fá líklegast vægari einkenni. 

Fyrirkomulag barnabólusetninga.

Upplýsingar um bólusetningar barna

Bóluefnið

Nafn á bóluefni: MMR-VaxPro. Bóluefni gegn mislingum, hettusótt og rauðum hundum (e. Measles, Mumps and Rubella, MMR) er í einni og sömu sprautunni. 

Hvenær gefið: Bólusetja þarf tvisvar sinnum. Fyrri bólusetningin er gerð þegar barn er 18 mánaða gamalt en sú síðari við 12 ára aldur. 

Virkni bóluefnis: Bóluefnið veitir mjög góða vörn gegn þessum sjúkdómum eftir tvær bólusetningar. Ekki er talin þörf á örvunarskammti síðar á ævinni. 

Frábendingar: Bóluefnið á ekki að gefa í eftirfarandi tilfellum nema í samráði við lækni eða hjúkrunarfræðing:  

  • Grunur um ofnæmi fyrir bóluefninu eða einhverju innihaldsefni bóluefnis t.d.neómýcíni eða sorbitóli
  • Hiti er yfir 38.5 °C   
  • Fólki með ofnæmi fyrir eggjum 
  • Fólki með virka ómeðhöndlaða berkla (TB) 
  • Fólki með skert ónæmiskerfi  
  • Fólki með ákveðna blóð- eða ónæmissjúkdóma
  • Fólki með krabbamein/í krabbameinsmeðferð  
  • Fólki í lyfjameðferð t.d. á stera- eða ónæmisbælandi lyfjum
  • Þunguðum konum eða konum með börn á brjósti

Aukaverkanir: Almennt vægar. Börn geta í einstaka tilfellum fengið hita og jafnvel útbrot einhverjum dögum eftir bólusetningu. Þá getur stungustaður verið aumur og jafnvel rauður og þrútinn í nokkra daga. 

Ef grunur um alvarleg ofnæmisviðbrögð skal leita tafarlaust til læknis.

Í mörgum löndum eru börn bólusett yngri fyrir þessum sjúkdómum en hér er gert. Ástæðan er sú að þar er notað annað bóluefni.