Hraun rennur niður í Nátthaga

Hraunið rennur niður í Nátthaga.
Hraunið rennur niður í Nátthaga. Ljósmynd/Elvar Ólafsson

Hraun er tekið að renna niður í Nátthaga. Í nótt rann hraun yfir eystri varnargarðinn á Fagradalsfjalli, en varn­argarðarn­ir voru gerðir í því skyni að seinka því að hraun renni í Nátt­haga og nái þannig seinna að ljós­leiðara sem þar ligg­ur og hring­teng­ir Reykja­nes, og að Suður­strand­ar­vegi. 

Í myndskeiðum sem birt voru í Facebook-hópnum Jarðsöguvinir má sjá hvernig glóandi hraunið rennur niður í dalinn. 

Gunnar Schram yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurnesjum sagði í samtali við mbl.is að Nátthagar séu djúpur og víður dalur og þar geti safnast óhemjumikið hraun. 

Bogi Adolfsson, formaður björgunarsveitarinnar Þorbjörns, segir að hraunið fari hratt niður brekkuna í Nátthaga en síðan hægist á því þegar það rennur yfir flatlendið. 

„Þetta er ekki ruðningur, þetta er þunnfljótandi og fer þar af leiðandi hraðar yfir og er þynnra lag,“ segir Bogi. „Við fylgjumst með, erum með púlsinn á þessu og erum með hóp þarna að stýra traffík. Þetta fer hratt niður hallann, en þegar það kemur niður er mótstaða og það fer ekki eins hratt. Fólk þarf að vera meðvitað um að ef það safnast upp getur það tekið svona litla spretti,“ segir Bogi. 

Fréttin hefur verið uppfærð. 

Hraunið rennur niður í Nátthaga.
Hraunið rennur niður í Nátthaga. Ljósmynd/Elvar Ólafsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert