Fara í efni

Forval vegna hönnunar um skipulag og hönnun útsýnissvæðis við snjóflóðavarnargarðanna á Bjólfi

20.05.2021 Fréttir

Múlaþing auglýsir eftir þátttakendum í forval vegna fyrirhugaðrar hugmyndasamkeppni um skipulag og hönnun útsýnisstaðar við snjóflóðavarnargarða á fjallinu Bjólfi sem er í Seyðisfirði. Samkeppnin er haldin í samvinnu við Félag íslenskra landslagsarkitekta, FÍLA.

Markmið samkeppninnar er að auka útsýnis- og náttúruupplifun svæðisins ásamt því að tryggja öryggi gesta svæðisins. Ekki síður er markmiðið að gera svæðið að eftirsóknarverðum ferðamannastað á Austurlandi.

Leitast er við að fá fram hugmyndir að hönnun og efnisnotkun útsýnissvæðis sem gegnir því hlutverki að svala forvitni gesta sem vilja skoða mikilfenglegt útsýnið frá svæðinu. Æskilegt er að hönnun falli vel að umhverfinu og tillagan sé verkfræðilega og kostnaðarlega raunsæ.

Nánari keppnislýsing og keppnisgögn verða afhent völdum teymum.

Valin verða 4 teymi til þátttöku í samkeppninni og mun hvert þeirra fá greiddar kr. 1.500.000,- fyrir sínar tillögur. Greitt verður aukalega kr. 1.000.000,- fyrir verðlaunatillöguna. Allar upphæðir eru án vsk.

Sveitarfélagið áskilur sér rétt til þess að nýta lausnir og hugmyndir úr öllum tillögum. Sveitarstjórn stefnir að því að semja við verðlaunahöfunda um áframhaldandi skipulag og hönnun útsýnissvæðisins.

Hvatt er til þverfagslegs samstarfs og jafnframt er kostur að teymi séu fjölbreytt er varðar reynslu, aldur og kyn.

Teymi þátttakenda verða að uppfylla eftirfarandi skilyrði:

  • Í hverju teymi skal vera landslagsarkitekt.
  • Í hverju teymi skal vera aðili sem er á lista Mannvirkjastofnunar yfir löggilda hönnuði skv. 25.gr. laga um mannvirki nr. 160/2010.
  • Sýna þarf fram á að a.m.k. einn aðili í teymi hafi hlotið viðurkenningu eða verðlaun í skipulags- eða hönnunarsamkeppnum.

 

Umsókn um þátttöku skal innihalda upplýsingar um viðkomandi teymi s.s. nöfn, menntun og reynslu. Taka skal fram á umsókn sameiginlegan starfsaldur aðila í teymi. Farið verður með allar upplýsingar sem trúnaðarmál. Ekki er heimilt að aðilar á sömu teiknistofu sé í fleiri en einu teymi.

Valnefnd sem skipuð er fulltrúum frá sveitarfélaginu og FÍLA munu meta hvaða teymi uppfylla skilyrði til þátttöku. Umsóknir verða flokkaðar annars vegar í pott þar sem sameiginlegur starfsaldur aðila í teymi er undir 10 árum og hins vegar í pott þar sem sameiginlegur starfsaldur er yfir 10 árum. Til þátttöku verður 1 teymi dregið úr fyrri pottinum og 3 teymi úr potti þeirra sem eru með yfir 10 ára starfsaldur.
Úrdráttur verður í votta viðurvist. Ef engar umsóknir berast í fyrri pott þá verður fjórða teyminu bætt við í seinni pott.

Völdum teymum verður tilkynnt um niðurstöðu úrdráttar eigi síðar en um miðjan júní og verður teymum afhent keppnisgögn í framhaldi.

Stefnt er að því að skil í samkeppni verði í byrjun september.

 

Dómnefnd skipa:

Björn Ingimarsson, bæjarstjóri Múlaþings og fulltrúi Múlaþings,

María Hjálmarsdóttir, verkefnastjóri hjá Austurbrú og fulltrúi Múlaþings,

Oddur Hermannsson, landslagsarkitekt, fulltrúi FÍLA.

 

Verkefnisstjóri samkeppninnar og ritari dómnefndar er

Jónína Brá Árnadóttir, Múlaþingi.

Trúnaðarmaður dómnefndar er Ólafur Melsted, landslagsarkitekt, FÍLA.

 

Þeir sem hafa áhuga á því að taka þátt í forvalinu eru beðnir að senda inn upplýsingar fyrir kl. 16.00, fimmtudaginn 3. júní 2021 til verkefnisstjóra, merkt „Hugmyndasamkeppni Bjólfur“:

Jónína Brá Árnadóttir
jonina.arnadottir@mulathing.is
Bæjarskrifstofur Múlaþings
Lyngás 12,
700 Múlaþing

Ef umsókn er send í pósti er nægilegt að póststimpill sé innan tilskylds tímaramma.

Forval vegna hönnunar um skipulag og hönnun útsýnissvæðis við snjóflóðavarnargarðanna á Bjólfi
Getum við bætt efni þessarar síðu?